19.6.2006 | 10:26
17.júní götuleikhús
var ekki hrifin af atriði hjá götuleikhúsi sem ég sá koma niður Laugaveginn á 17. júní. Og sendi því kvörtun til aðstandenda Hins hússins, það var vegna þessa:
,,Var það vegna atriðis sem var tilvísun í Jesú á krossinum og var hann dansandi og líkt og í annarlegu ástandi. Tel ég þetta vera skrumskælingu á annars mikilvægum atburði í hugum kristins fólks og skil ekki hver tilgangurinn var eða af hverju þetta er sýnt þarna."
Mér var svarað kurteisilega og bla bla bla.
Æi skil ekki hvað Jesús á krossinum tengist 17. júní. Ef þetta hefur einhverja djúpa meiningu sem ég skil ekki þá er engin leið að ná henni af svona götuleikhúsi á pallbíl sem fer framhjá manni á nokkrum sekúndum. Eitthvað hefðu múslimar sagt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Ég verð að vera ósammála þér, Sylvía. Ég fylgdist með götuleikhúsinu á 17. júní af hliðarlínunni og í stuttu máli snerist atriði þess um athafnir, sem í flestum tilfellum áttu sér stað frammi fyrir guði (allar nema getnaðurinn). Krökkunum tókst að búa til skemmtilega karaktera úr veislugestum og Jesú sjálfur var auðvitað hluti af stemningunni. Kannski var götuleikhúsið bara að varpa fram spurningunni: ,,Hey! Var Jesú ekki mennskur? Vildi hann ekki á einhverjum tímapunkti bara dansa?" Sumir myndu svara neitandi því að í augum sumra er Jesú einhvers konar guðleg vera en ekki mennskur. Hann var vissulega sonur guðs en það þýðir ekki að hann hafi verið leiðinlegur!
Þá spyrð þú um tengsl milli Jesú og sautjánda júní. Fyrir utan það að allir á pallinum voru greinilega að skemmta sér konunglega (sem er einmitt það sem maður gerir þann sautjánda, ekki satt?) þá spyr ég á móti, hver eru tengslin milli Pókemon-gasblöðru og 17. júní? Tengist Pókemon eitthvað stofnun lýðveldisins? Nei. Blaðran er flott og það sama á við um götuleikhúsið í skrúðgöngunni. Götuleikhúsið var geggjað! Maður þarf ekki alltaf að leita að einhverri djúpri meiningu.
Svo talar þú um að krossfestingin sé mjög heilagur atburður í augum kristins fólks og verið væri að gera einhvers konar paródíu úr henni. Þú heldur þá væntanlega að atriðið hefði strax verið skárra ef Jesú hefði bara haldið sig á krossinum og ekki gert neitt. Jáh það hefði svo sannarlega verið skemmtilegt! Gleðilega þjóðhátíð!
Ég held að þú sért að taka þetta aðeins og nærri þér og ég tel þetta heldur lítið tilefni til að senda inn kvörtun því að mínu mati var götuleikhúsið flottara en síðustu skipti og það verður erfitt verkefni að toppa þennan frábæra performans að ári.
Ómar G (IP-tala skráð) 25.6.2006 kl. 23:25
ekkert að því að leika Jesú dansandi, en honum var eflaust ekki dans ofarlega í huga á píslargöngunni. Þarna var hann sviðsettur með þyrnikórónu að dansa og það tel ég skrumskælingu. Krossfestingin því miður er ekki skemmtileg og verður það ekki.
Þú ert að tengja krossfestinugna við skemmtun á þjóðhátíð, það á bara ekki saman. Hér eru lög um trú og þetta atriði fer nærri því að brjóta þau.
SM, 26.6.2006 kl. 09:50
Ég held að þyrnikórónan hafi aðeins verið til að hjálpa fólki að átta sig á því að þetta var Jesú en ekki einhver ber maður. Jesú var veislugestur í brúðkaupi á 17. júní, ekki krossfestur á Golgata.
Hildur (IP-tala skráð) 28.6.2006 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.