10.2.2007 | 09:57
spark í rassinn II
Krefst verndar fyrir stúlkurnar
Pétur Hauksson geðlæknir segir að stjórnvöld eigi að bregðast strax við og aðstoða það fólk sem hefur orðið illa úti eftir dvöl sína í Byrginu. Pétur setti þegar árið 2002 fram grunsemdir um brotalamir í starfsemi Byrgisins.
Bréf hans þess efnis dagaði uppi hjá Landlæknisembættinu, en var ekki sent áfram til þar til bærra stjórnvalda. Síðan hefur komið í ljós að ástand mála í Byrginu var miklum mun verra en nokkurn óraði fyrir, bæði hvað snerti fjármál og fleiri þætti starfsins.
Þær stúlkur sem verst hafa orðið úti í dvöl sinni í Byrginu þurfa til dæmis vernd, því þær eru í hættu. Þarna er um varasama menn að ræða og þær eru skelfingu lostnar," segir Pétur. Mín skoðun er sú að það eigi að gera eitthvað fyrir þetta fólk. Mér finnst ömurlegt að þessar stúlkur þurfi að standa í því persónulega að fá málinu framgengt með kærum til sýslumanns. Það er ekkert smámál að ganga í gegnum slíkt. Þær eru hetjur, en þær eru jafnframt veikburða og eiga erfitt með þetta.
Þær voru veikar fyrir og máttu ekki við því áfalli sem þær urðu fyrir. Og nú eru þær aftur að upplifa það sem áfall að það er ekkert komið til móts við þær. Mér finnst að kerfið sem brást eigi að koma inn í þetta mál með myndarlegri hjálp núna."
Spurður hvað hann vildi að gert yrði fyrir fólk sem kom illa út úr dvöl sinni í Byrginu svarar Pétur að hann myndi vilja sjá ráðherra stíga fram og segja að ábyrgðin sé ríkisins. Það muni axla ábyrgð og gera eitthvað í málunum strax, og einnig til lengri tíma litið. Bara slík yfirlýsing myndi hjálpa fólkinu, þannig að því liði betur.
Auk verndar þurfa stúlkurnar á öryggi að halda núna. Sumar þurfa bráðahjálp vegna sinna sjúkdóma. Þær þurfa félagslegan stuðning út af börnum sem þær hafa eignast. Þetta þarf að koma frá einhverjum sem þær treysta, svo sem landlækni eða stjórnvöldum, því þær treysta vitaskuld engum lengur. En þær fá ekkert nema þögn."
Pétur segir ekki nóg að gert með því að hið opinbera kæri Guðmund Jónsson vegna bókhalds.
En þegar sér hafi verið ljóst að ekkert ætti að aðhafast í þágu fólksins þá hafi hann gripið til þess ráðs að skrifa Landlæknisembættinu í byrjun mánaðarins og fært rök fyrir því að um heilbrigðismál væri að ræða. Fólkið hafi farið í Byrgið vegna sjúkdómseinkenna í leit að meðferð. Ábyrgðin sé allt önnur heldur en ef fólkið hefði verið að leita eftir gistingu. Málið heyri undir lög um réttindi sjúklinga.
---
Gott hjá Pétri enn og aftur. Að það skuli þurfa að pressa svona á ríkið að sjá um sjúklinga...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Maður er bara hættur að trúa sínum eigin augum og því sem maður les um roluganginn í srjórnvöldum í þessu landi. Eru þetta andlegir oröyrkjar upp til hópa sem stjórna hérna??? Frábær Hann Pétur. Þurfum sko miklu fleira fólk eins og hann í störfin sem snúa að fólkinu í þessu landi.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.2.2007 kl. 11:50
heyr, heyr
SM, 10.2.2007 kl. 12:24
Nei, þetta eru ekki andlegir öryrkjar sem hér stýra, þetta eru siðferðilegir öryrkjar. Magnús félagsmálaráðherra vissi um óreiðuna frá 2003, gerði ekki neitt. Birkir vissi frá 2002, gerði ekki neitt. Landlæknir vissi árum saman, gerði ekki neitt. Þetta fólk á allt að segja af sér og vera útilokað frá því að gegna trúnaðarstörfum sem fólkið í landinu greiðir fyrir ævilangt.
Ingi Geir Hreinsson, 10.2.2007 kl. 13:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.